Spelhaugen samkeppni

Spelhaugen samkeppni

Ár
2012
Staðsetning
Bergen, Noregur
Stærð
149,860 m2
Samstafsaðilar
Viðskiptavinur
Auto 23 Spelhaugen
design image
Verkkaupi er eigandi  bílasölunnar Auto 23 Spelhaugen sem bauð 3 aðilum  þátttöku í lokaðri samkeppni um framtíðarsýn Fyllingsdalen bæjarhlutans í Bergen. Batteríið Arkitektar og Link Arkitektur í Bergen sigruðu samkeppnina en aðrir kleppendur voru Snøhetta frá Noregi og BIG Architects frá Danmörku – hvort tveggja heimsfrægar teiknistofur.
Um er að ræða 6 hektara svæði og er gert ráð fyrir að á því rísi þétt byggð verslana, skrifstofa og íbúða.  
Meginmarkmið tillögunar er að skapa sjálfbæran bæjarhluta í manneskjulegum mælikvarða. Sótt var í staðbundnar hefðir í arkitektúr eins og bryggjuhúsin Bryggen í miðbæ Bergen. Tveir turnar munu rísa upp úr hverfinu í norðvestri og verða kennileiti staðarins sem munu sjást langt að. Á suðausturhluta er gert ráð fyrir menningarhúsi. Byggðarmynstur tillögunnar felur í sér verulegan sveigjanleika hvað varðar þéttleika, áfangaskiptingu og framkvæmdaröðun. Byggðin er lagskipt þannig að skýr skil séu á milli verslanasvæðisins og skrifstofu- og íbúðarbyggðarinnar. Aðalsamgönguæðin myndar einskonar árfarveg sem liðast eins og fljót í gegnum hverfið frá norðri til suðurs og myndar félagslegan samkomustaður akandi og gangandi fólks auk fyrirtækja og íbúa.
Bílakjallari er undir hluta svæðisins með góða tengingu upp á efri hæðirnar. Á jarðhæðum eru stórverslanir með gagnsæjum framhliðum sem snúa að aðalgönguleiðum. Ofan á þetta lag er lagt einskonar grænt teppi fyrir skrifstofu- og íbúðabyggð. Byggðin er brotin upp í 12 metra módul með línulegum grænum görðum sem tengjast grænu svæðunum beggja vegna dalsins og tryggja um leið góða dagsbirtu inn í byggingarnar. Um svæðið liggur göngustígur sem gerir fólki kleift að ferðast úr einum garði í annan með fjölbreyttri upplifun.
Við innkomu á svæðið er aðaltorgið með menningarhúsi sem er hjarta bæjarhlutans þar sem mannlífið blómstrar með veitingastöðum og litlum verslunum. Á góðviðrisdögum eru margvíslegar uppákomur á útisviði menningarhússins sem draga að fólk og gera torgið að skemmtilegum viðkomustað.

Önnur Verk